Leita í fréttum mbl.is

Æskuástin mín heita og söngvakeppnin í kvöld

Ég horfði á söngvakeppnina í kvöld og þegar ljóshærði strákurinn söng, mig minnir að hann hafi verið annar í röðinni þá fékk ég sting í hjartað. Hann minnti mig svo á æskuástina mína sem ég fékk aldrei að njóta, að hluta til vegna eigin heimsku en einnig vegna þess að hann lést þegar hann var aðeins átján ára gamall.
Hann var fimmtán ára og ég sautján þegar við hittumst fyrst á sveitaballi og það  var ást við fyrstu sýn hjá okkur báðum.
Hann var svo fallegur með ljósa hárið sitt og bláu augun en þó var það brosið hans sem prýddi hann mest, því þegar hann brosti þá ljómaði hann upp og tennurnar hans voru eins  og röð af  mjallahvítum  perlum.
En við vorum bæði svo feimin að illa gekk fyrir okkur að ná saman. Við vönguðum samt öðru hvoru á böllum þegar hann þorði að bjóða mér upp en þegar dansinn var á enda var vandræðagangurinn á okkur svo mikill að hvorugt þorði að fylgja hinu, eftir að síðasta dansinum lauk.
En á endanum mannaði hann sig þó upp í að biðja mig að hitta sig eitt föstudagskvöldið niðri á  gamla Hressó.
En ég þetta erkifífl sem ég var hegðaði mér óafsakanlega illa og ég skil ekki enn þann dag í dag af hverju.  Ég sveik hann og mætti ekki niðrá Hressó,  því í einhverju bríaríi vangaði ég annan strák á balli í millitíðinni og ég þorði ekki  fyrir mitt litla líf að fara á stefnumótið við vin minn.
Já ég var svo sannarlega ung og vitlaus.

Enda gat hann ekki fyrirgefið mér í  tvö löng ár. En þó vissum við bæði að við vorum ástfangin af hvort öðru upp fyrir haus. En ég var of huglaus til  biðja hann fyrirgefningar og hélt líka að það myndi ekki þýða neitt fyrir mig. Hann hefndi sín líka rækilega á  mér og  sló sér upp með bestu vinkonum mínum, beint fyrir framan nefið á mér og horfði þá oft storkandi á mig.  Ég reyndi að láta hann halda að mér stæði á sama og borgaði í sömu mynt og daðraði við vini hans. En oft mættust augu okkar úti á dansgólfinu þegar við vorum í fangi einvers annars eða annarrar.

Það var ekki fyrr en ég hitti minn tilvonandi eiginmann að ég jafnaði mig á þessu, að ég hélt.
Við kærastinn héldum okkur mikið út af fyrir okkur og fórum lítið  út í marga mánuði.
En daginn sem við trúlofuðum okkur fórum við á ball um kvöldið.

Meðan kærastinn var að kaupa okkur drykki kom vinurinn minn fyrrverandi. Hann gekk beint strik til mín þar sem ég sat í sófa við barinn og bauð mér upp í dans. Ég var svo hissa að ég var sem  lömuð og þegar ég dansaði við hann fann ég sömu töfrana á ný sem enn neistuðu á milli okkar. Hann hvíslaði í eyra mér.
'Hvar hefurðu verið allan þennan tíma'?
En ég gat með engu móti svarað því ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð lengur, svo lauk þessum alltof stutta dansi og hann fylgdi mér til baka til sætis í sófanum, en stóð sjálfur þar sem ekki var pláss fyrir fleiri.

Kærastinn minn var ekki enn kominn til baka með drykkina okkar og strákurinn sem sat við hliðina á mér í sófanum fór að gera sér dælt við mig og lagði handlegginn utan um mig axlir mér.
Þetta þoldi vinurinn minn ekki, hann rauk upp og hrópaði á strákinn.
´Láttu hana vera, hún er mín!'
Þá stóð ég upp og gekk á brott,  gekk í burtu  með blæðandi hjarta, frá honum sem ég fann að ég elskaði heitt, en ég elskaði líka kærastann minn.

Þetta eina ár sem leið frá þessu kvöldi og þar til vinurinn minn dó, hittumst við oft fyrir tilviljun, ég var þá með kærastanum mínum,  en hann með einhverri annarri stúlku og í hvert skipti áttum við  erfitt með að slíta augun hvort af öðru. Augu okkar leituðu ætíð uppi augu hvors annars eins og seglar og alltaf var jafn sárt að sjá hann með annarri stúlku og  sífellt  nagaði efinn mig svo nístandi sár.

Það stendur mér enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum kvöldið sem mér var sagt að vinurinn minn væri dáinn, það var verslunarmannahelgi og  hann hefði fundist látinn uppi í brekku í Þórsmörk. Hann varð aðeins átján ára gamall, elsku æskuástin mín.

Ég var svo frosin að ég gat ekki grátið en ég man að ég hugsaði, þetta átti að fara svona, hann var ekki ætlaður mér í þessum heimi.

Í dag er ég löngu skilin við manninn minn því hjónabandið var ekki hamingjusamt en þessi leið var mér ætluð og ég þakka Guði fyrir börnin mín þrjú og barnabörnin fjögur. 

Enn ennþá minnist ég æskuástarinnar minnr heitu og ég trúi því að við hittumst aftur hinu megin við gröf og dauða.

                                               Náinn

                                           Brástjörnur blikandi man ég
                                      bros eins og ljómandi perlur
                                      nánd líkt og neistandi elding
                                      nafn er var ómfagur söngur

.

                                                                     Heart Heart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Miklir eru frásagnarhæfileikarnir þínir Guðný, maður bara situr með tárvot augum og sér varla á lyklaborðið.

Þetta er sú tilfinningamesta frásögn sem ég hef lengi séð, ef ég hef þá nokkuð séð aðra berti.

Ég samhryggist þér vegna beggja aðilina, en þó verð ég að viðurkenna að ég samhryggist þér meira og sérstaklega vegna ástinnar sem þú aldrei fékkst að njóta.

Sigfús Sigurþórsson., 15.4.2007 kl. 04:57

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þakka þér fyrir Sigfús minn.

Svava frá Strandbergi , 15.4.2007 kl. 05:06

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Stundum er eins og örlög ráði, við vitum aldrei hvað framtíðin hefur uppá að bjóða.  

Ester Sveinbjarnardóttir, 15.4.2007 kl. 07:07

4 Smámynd: www.zordis.com

Tregafull minning! Handan bjarmans og línudans mun koma nýr dagur að nýju.  Gott að hafa góða trú og vitundina í bakhöndinni.

Gangi ykkur vel næst

www.zordis.com, 15.4.2007 kl. 09:28

5 Smámynd: Jens Guð

  Nokkuð áhrifarík frásögn.  Það er reyndar eitt í þessu sem velta má fyrir sér.  Fólk hefur tilhneigingu til að ofmeta það sem því langar í en fær ekki.  Ég umgengst mikið unglinga sem bera undir mig ástarmálin sín.  Oft eru þau mál í hinu mesta brasi.  Ósjaldan er það sem einhver verður ástfangin/n af manneskju sem er "frátekin". 

  Við það er eins og til verði þráhyggja,  sem heldur fyrir viðkomandi vöku og truflar tilveruna á alla kanta.  Þetta ástand getur varað heilu og hálfu árin.   

  Svo slitnar upp úr hjá hinum.  Og réttir aðilar para sig saman.  Fyrst er voða hamingja.  En oftar en ekki kemur í ljós að þau eiga engan veginn saman.  Þegar þau kynnast betur og umgangast daglega þá fjarar glansinn af eins og dögg fyrir sólu.     

Jens Guð, 15.4.2007 kl. 10:53

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Voðalegt væl er þessi saga og hjá sumum sem kommentera ótrúleg væmni. Þeir skipta þúsundum, t.d. bara hér í Reykjavík, sem aldrei hafa notið neins konar ástar. Þannig er það á öllum tímum alls staðar. Ástamál eru reyndar bara hormónarugl. Enignn ástæða til að gera mál úr þeim. Eins og Jens segir þá líður glansinn hjá. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.4.2007 kl. 11:45

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það er bannað að dissa ástina Sigurður. Ástin er það afl sem drífur okkur áfram á erfiðum tímum, ástin heldur lífsneistanum logandi. Frábær frásögn Svava, hún leikur á allan tilfinningaskalann. Ég verð meir en líka glöð. Kannski af því ég hef misst ástina mína og lært svo að elska á ný.

Ásdís Sigurðardóttir, 15.4.2007 kl. 13:04

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Mér er sama þó þú dissir ástina Nimbus það hefur engin áhrif á mig.

Svava frá Strandbergi , 15.4.2007 kl. 15:53

9 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Jens, lestu söguna betur þá sérðu að hvorugt okkar var frátekið þessi fyrstu tvö ár eftir að við kynntumst.
Þetta er saga um svik mín við hann og reiði hans. Hann vissi ekki heldur að ég var trúlofuð þegar við hittumst þarna á ballinu í enda sögunnar, þegar hann dansaði við mig og ætlaði sér greinilega  að fyrirgefa mér svikin eftir allt saman,  sem sagt hann vissi ekki að ég var frátekin og því var ekki um  þráhyggju að ræða eins og þú talar um. 

Annars er nokkuð til í því að 'sú er ástin heitust sem er bundin meinum'. 

Svava frá Strandbergi , 15.4.2007 kl. 16:04

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Afhverju má ekki dissa ástina? Má ekki dissa allt, Ásdís? Gott hjá þér Svava. Ekkert hefur nú áhrif á þig nema vesalings Tító.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.4.2007 kl. 17:22

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Það er naumast hvað þú ert  tæpur  í dag Sigurður.

Svava frá Strandbergi , 15.4.2007 kl. 17:41

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Jú, auðvitað mátt ÞÚ diss allt sem þú vilt, ég var bara ekki sammála.

Ásdís Sigurðardóttir, 15.4.2007 kl. 18:42

13 Smámynd: Jens Guð

Þú ert að misskilja mig Guðný.  Ég var ekki að endursegja sögu þína eða leggja út af henni öðruvísi en að vitna til misheppnaðra ástarmála nokkurra unglinga sem ég þekki.  Kjarninn í þeirri tilvísun er þessi:
 

  Fólk ofmetur oftast svakalega og fegrar forboðna ást.  Þegar á reynir og ástin er ekki lengur forboðin þá reynist hún að öllu jöfnu tálsýn.

  Eitt dæmi af mörgum sem ég þekki:  Ung kona vann á stórum vinnustað.  Hún varð ástfangin af strák sem vann þar.  Þau unnu á sitthvorum svæði vinnustaðarins og sáu hvort annað sjaldan.  Bæði voru á föstu.  Ef strákurinn yrti á stelpuna fór hún í kerfi.  Eldroðnaði og kom ekki upp orði.  Hana dreymdi á nóttinni rómantíska drauma um strákinn.  Hún fékk hann á heilann.  Öll hennar hugsun snérist um hann.

  Að endingu sleit hún sambandinu sem hún var í til að auka möguleika á að gera eitthvað varðandi draumaprinsinn.  Hún fór til spákvenna og miðla sem staðfestu að þarna væri framtíðarmaður hennar fundinn.  Hún marglýsti því yfir við mig að hún hreinlega vissi að þetta yrði eiginmaður hennar.

  Eftir næstum heils árs ferli hætti draumaprinsinn í sínu sambandi.  Og þeim sem var ætlað að vera saman byrjuðu saman.  Hún sveif á rósbleiku skýi.  En varla lengur en í 3 - 4 vikur.  Hún uppgötvaði að strákurinn var leiðinlegur.  Hugsaði ekki um annað en sjálfan sig og var óðamála að segja ýktar montsögur af sér.  Þreif sig ekki dögum saman.  Og annað eftir því.  Ástin breyttist í andúð. 

  Hún var ekkert voðalega lengi að finna annan.  Samband þeirra fékk að þróast á betri hátt.  Núna eru þau trúlofuð og byrjuð að búa.       

Jens Guð, 16.4.2007 kl. 00:15

14 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Hver einasta ástarsaga er einstök. Og hún þarf ekkert endilega að taka mið af annarra manna ástarsögum. Við erum of gjörn á að líta til reynslu annarra og halda að hún eigi við í okkar tilfelli. Það er ekki svo. Þó einhver geri eða reyni eitthvað sem var ekki eins og þeir bjuggust við...eru líka til sögur sem eru á öndverðum meiði og sanna hið gagnstæða. Þess vegna á maður að halda með sér og sinni sögu. Sé hún sönn fyrir manni í hjartanu er það svo. Guðný mín..ég er sannfærð um að þessi magnaða ástarsaga er að gerast...bara á öðru sviði. Því ekkert í heimi hér getur aftengt sálir sem tengdust eða tengjast. Það er það sem er svo fallegt við lífið.

Við skulum aldrei vanmeta ástina og kraft hennar. Án hennar værum við ekkert.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 16.4.2007 kl. 00:26

15 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þú ert ekki að endursegja sögu mína Jens en hvers vegna er þér svona mikið í mun að heimfæra hana endilega uppá að misheppnaðar ástarsögur, sem þér hafa verið sagðar?
Hver er tilgangurinn með því?
Má ég ekki eiga í friði mína fallegu, sorglegu sögu um dreng sem er dáinn og getur ekki varið sig gegn þínum tilgátum eða líkingum við aðrar sögur,  um að kannski hefði hann ekki þrifið sig og verið óþolandi monthani að öllu leyti ef hann hefði fengið að lifa.
Mér finnst þetta satt að segja vera hálfgerð þráhyggja hjá þér að sannfæra mig um það að þessi ástarsaga mín hefði örugglega farið illa ef við hefðum náð saman. Hvers vegna skil ég ekki. Það eru líka til fullt af sögum um forboðnar ástir sem fara vel ef elskendurnir ná loks saman.

Mér finnst þú vera að óhreinka fallega minningu sem ég á með sjálfri mér og minningu um dreng sem þú þekktir aldrei. Það er alger óþarfi að sverta minningu hans með því að koma því að trekk í trekk að hann hefði getað orðið óalandi og óferjandi.

Mér finnst þetta satt að segja illa gert af þér og mikið taktleysi sem þú sýnir með þessu.

 

Svava frá Strandbergi , 16.4.2007 kl. 04:33

16 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þakka þér fyrir falleg orð Katrín mín, við  erum  ansi  líkar  í hugsun. 

Svava frá Strandbergi , 16.4.2007 kl. 04:40

17 Smámynd: Jens Guð

  Það er ekki ætlun mín að sverta minningu um dáinn dreng.  Alls ekki.  Og fjarri öllu lagi að ég sé að heimfæra hegðun annarra upp á hann.  Ég reyndi að taka það fram.  En þú ert eitthvað viðkvæm fyrir þessu þannig að ég stimpla mig út úr þessari umræðu til að fyrirbyggja frekari rangtúlkun. 

Jens Guð, 16.4.2007 kl. 12:34

18 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Ég hugsa að Jens Guð hafi meint þetta vel - hugsa að hann misskilji þetta þannig að þú sért í einhverju mega-volli yfir þessu og sé að reyna að hughreysta þig.

gerður rósa gunnarsdóttir, 18.4.2007 kl. 07:08

19 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Og Sigurður er að reyna að fela það hvað hann er í rauninni ofur-rjómantískur - þekki alveg svona týpur; hörð skel og fyrir innan ofurviðkvæmt blóm ;)

gerður rósa gunnarsdóttir, 18.4.2007 kl. 07:13

20 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já Gerður Rósa líklega er þetta rétt hjá þér. Gaman að sjá þig. Ert þú að blogga? Þá verð ég endilega að fara að kíkja á þig.

Svava frá Strandbergi , 18.4.2007 kl. 14:33

21 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Neinei, ég er ekkert að blogga; bara eitthvað að væflast :)

gerður rósa gunnarsdóttir, 19.4.2007 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband