Leita í fréttum mbl.is

Freistingar fyrrverandi stórreykingakonu

Ég skoppaði út í búð í dag á nýju skaflajárnunum mínum,  nei annars mannbroddar heitir þetta víst. En ég hef svona síðustu ár of t verið eitthvað einkennilega hrædd við það að detta í snjó og hálku og fjárfesti því nýlega í þessum bráðnauðsynlegu en nauðaljótu mannbroddum.

Annars var svo sem engin hálka í dag en nóg var aftur á móti af sköflunum.

Satt að segja hafði ég ekki farið út úr húsi alla helgina heldur legið yfir því að teikna og lesa. Nú og svo náttúrulega tölvunni minni, sem Tító kötturinn minn hatar, af því hann heldur að ég elski hana heitar en hann.

Ég  notaði  tækifærið og heimsótti vinkonu mína á leiðinni heim úr Bónus. Hún bauð mér upp á kaffi sem ég þáði með þökkum. En þegar hún dró upp sígarettupakka og kveikti sér í einni var ég fljót að finna afsökun til þess að koma mér út.  Ég er ekki svona fanatísk heldur svona tæp.  Því þó að ég hafi hætt að reykja 10. október á afmælisdegi systkina minna, tvíburanna blessaðra,  þá má ég varla sjá sígarettu án þess að langa til að hrifsa hana til mín og svæla henni svo oní mig. Því hef ég passað vel upp á það að eiga aldrei sígarettur og líka að fara aldrei aftur inn í reykingakompuna í vinnunni.

Annars er ég búin að vera afskaplega dugleg í tóbaksbindinu en því miður hef ég líka verið iðin við það að narta í mat á milli mála. Mér varð það ljóst þegar ég brá mér á útsölu fljótlega eftir áramótin að þessi nýtilkomni ávani minn, hafði haft mjög svo óæskilegar afleiðingar í för með sér. Ég þurfti nebbnilega tveimur númerum stærra í fatnaði en áður.

En ég hugsaði með mér þarna í búðinni þegar það rann upp fyrir mér að ég hafði blásið svona út, að það væri miklu skárra að vera smá feit heldur en bráðfeig og keypti mér svo með góðri samvisku glæsilegan leðurjakka eins og mig hefur alltaf langað svo í. Ég hafði auðvitað efni á að kaupa svona flottan jakka, af því að ég var hætt að reykja. Ég keypti mér meira að segja tvær blússur og eina meiriháttar peysu líka,  í sömu búðinni.

Já það segir fljótt til sín að maður/kona hefur meiri peninga milli handanna þegar hætt er að reykja. Þess vegna flýtti ég mér út frá vinkonu minni í dag því ég hef engan áhuga á því

scan0026

að fara að reykja aftur með tilheyrandi bronkítis og jafnvel lungnabólgu og síðast en ekki síst blankheitum.

En við vinkona mín ætlum saman í bíó á morgun og ég ætla ekki með henni þegar hún fer út til þess að reykja í hléinu.

 ps. Ég byrja í líkamsrækt á miðvikudaginn.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband