Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Freistingar fyrrverandi stórreykingakonu

Ég skoppaði út í búð í dag á nýju skaflajárnunum mínum,  nei annars mannbroddar heitir þetta víst. En ég hef svona síðustu ár of t verið eitthvað einkennilega hrædd við það að detta í snjó og hálku og fjárfesti því nýlega í þessum bráðnauðsynlegu en nauðaljótu mannbroddum.

Annars var svo sem engin hálka í dag en nóg var aftur á móti af sköflunum.

Satt að segja hafði ég ekki farið út úr húsi alla helgina heldur legið yfir því að teikna og lesa. Nú og svo náttúrulega tölvunni minni, sem Tító kötturinn minn hatar, af því hann heldur að ég elski hana heitar en hann.

Ég  notaði  tækifærið og heimsótti vinkonu mína á leiðinni heim úr Bónus. Hún bauð mér upp á kaffi sem ég þáði með þökkum. En þegar hún dró upp sígarettupakka og kveikti sér í einni var ég fljót að finna afsökun til þess að koma mér út.  Ég er ekki svona fanatísk heldur svona tæp.  Því þó að ég hafi hætt að reykja 10. október á afmælisdegi systkina minna, tvíburanna blessaðra,  þá má ég varla sjá sígarettu án þess að langa til að hrifsa hana til mín og svæla henni svo oní mig. Því hef ég passað vel upp á það að eiga aldrei sígarettur og líka að fara aldrei aftur inn í reykingakompuna í vinnunni.

Annars er ég búin að vera afskaplega dugleg í tóbaksbindinu en því miður hef ég líka verið iðin við það að narta í mat á milli mála. Mér varð það ljóst þegar ég brá mér á útsölu fljótlega eftir áramótin að þessi nýtilkomni ávani minn, hafði haft mjög svo óæskilegar afleiðingar í för með sér. Ég þurfti nebbnilega tveimur númerum stærra í fatnaði en áður.

En ég hugsaði með mér þarna í búðinni þegar það rann upp fyrir mér að ég hafði blásið svona út, að það væri miklu skárra að vera smá feit heldur en bráðfeig og keypti mér svo með góðri samvisku glæsilegan leðurjakka eins og mig hefur alltaf langað svo í. Ég hafði auðvitað efni á að kaupa svona flottan jakka, af því að ég var hætt að reykja. Ég keypti mér meira að segja tvær blússur og eina meiriháttar peysu líka,  í sömu búðinni.

Já það segir fljótt til sín að maður/kona hefur meiri peninga milli handanna þegar hætt er að reykja. Þess vegna flýtti ég mér út frá vinkonu minni í dag því ég hef engan áhuga á því

scan0026

að fara að reykja aftur með tilheyrandi bronkítis og jafnvel lungnabólgu og síðast en ekki síst blankheitum.

En við vinkona mín ætlum saman í bíó á morgun og ég ætla ekki með henni þegar hún fer út til þess að reykja í hléinu.

 ps. Ég byrja í líkamsrækt á miðvikudaginn.

  


'Víða hart í búi hjá smáfuglunum'

Ég rak augun í þessa fyrirsögn í Morgunblaðinu um það að smáfuglarnir okkar ættu bágt núna og það er víst satt og rétt að litlir fuglar séu svangir og kaldir núna í þessum snjó og harðindum.

En hvað með litlu mýsnar, ætli þær séu ekki líka svangar og kaldar?

Jú örugglega eru þær það, en með músagreyin gegnir bara allt öðru máli. Því ef mýs gerast svo fífldjarfar að leita á náðir okkar mannanna í þeirri fávísu von að við munum seðja hungur þeirra, þá bíður þeirra undantekningarlaust ekkert annað en miskunnarlaus dauðinn.

Svona er nú mannskepnan margskipt í eðli sínu. Við mennirnir erum aðeis góðir við þau dýr sem okkur eru þóknanleg.

En setjum nú sem svo að við bærum umhyggju fyrir músum jafnt sem fuglum. Þá gæti fréttin sem fylgdi fyrirsögninni hér að ofan hafa hljóðað á þessa leið.

 

                          Víða hart í búi hjá músunum

Þegar allt er hvítt yfir að líta er örðugra fyrir mýsnar að verða sér úti um fæðu og því um að gera að muna eftir þeim.
Það gerði hún Lea Hrund á Húsavík í dag og á myndinni sést hún vera að gefa músunum.
Að sögn fréttaritara Morgunblaðsins á Húsavík leið ekki á löngu þar til nokkrar þeirra voru farnir að gæða sér á fóðrinu.

 

Ég læt svo í lokin fljóta með ljóðið-

 

                         Gildran

 

                     Þau sækja á hug minn

                     svörtu augun

                     er spegluðu ótta

                     og angist dauðans.

                     Svo þreytt var hún orðin

                     og þjökuð af hræðslu

                     þó reyndi hún að synda

                     því hún elskaði lífið

                     og óttaðist dauðann.

 

                     Ég var tólf ára telpa 

                     sem trúði á hið góða.

 

                     - Í sveit þetta sumar.

 

                      Hún synti til dauða

                      þó svörtu augun

                      mig sárbændu um líf.

 

                      En ég mátti ekki hjálpa.

 

                      Þau sækja á hug minn

                      svörtu augun.

                      - Svörtu litlu músaraugun.

 


Útrýmum skömminni

Það er eitt atriði sem mig langar til að benda á í sambandi við þá áherslu sem lögð hefur verið á það, að þessi heyrnarlausu börn sem voru misnotuð af þeim sem þau áttu að treysta, hafi engum getað sagt frá vegna tjáskiptaerfiðleika.

það atriði er það, að tjáskiptaerfiðleikarnir eða heyrnarleysið hafi ekki skipt höfuðmáli í þessum sökum,

Því öll börn hvort sem þau eru heyrnarlaus eða ekki og sem misnotuð eru af þeim sem þau eiga að geta treyst t.d. sínum nánustu 'geta heldur ekki tjáð sig' um reynslu sína.

Alla vega hefur það verið reyndin fram á okkar daga.

Þetta er hinn sári sannleikur og er ég þó á engan hátt að gera lítið úr hinni ótrúlegri raun heyrnarlausu barnanna.

Börn sem verða fyrir kynferðislegri misnotkun af hendi sinna nánustu ættingja loka einfaldlega á svona hræðilega reynslu.

Þau gleyma henni á yfirborðinu sökum þess að annars gætu þau hreinlega ekki lifað af.

En þessi ógurlega lífsreynsla setur mark sitt á þau engu að síður sem getur komið fram í allskyns hegðunarröskunum og persónuleikaröskunum.

Þess vegna er svo óendanlega mikilvægt að allir þeir sem umgangast börn,  ekki bara kennarar eða aðrir opinberir starsmenn,  séu vakandi fyrir hvers konar neikvæðum breytingum á framkomu barnanna og frammistöðu þeirra, á hvaða vettvangi sem er.

Ég er ekki að mæla með neinni hysteríu en það er fyrir löngu kominn tími til, að útrýma þessarri skömm sem misnotkun á börnum er, en sem því miður hefur alltaf fylgt mannkyninu frá örófi alda, í skjóli bannhelginnar.


Álfar, tröll (og sumarbúðir fyrir jólasveina.)

_scan0012Mikið fannst mér yndislegt að líta út um gluggann í morgun og sjá logndrífuna og alhvíta jörð.

það lá við að ég kæmist aftur í síðbúið jólaskap. Mér fannst þetta kjörið þrettándaveður ekki seinna að vænna að jólasnjórinn kæmi síðasta dag jóla á þrettándanum.

Ég settist svo við tölvuna og las fréttina um álfana og tröllin sem er nú boðið hæli á Stokkseyri þar sem eins og segir þrengir nú verulega að þeim í íslenskri náttúru vegna stóriðjuframkvæmdanna.

Mér finnst þetta verulega fallega gert að bjóða þessu vættum sem hafa búið með okkur í landinu frá upphafi húsaskjól. En jafnframt fannst mér það svolítið sorglegt að nú væri svo komið að Ísland væri orðið svo náttúrulaust vegna stóriðjunnar að ekki einu tröll eða huldufólk gæti lengur sinnt sinni náttúru í sína rétta umhverfi.

Heldur þyrfti að framleiða einskonar náttúrulíki og hafa til sýnis innandyra og bjóða þessum yfir- náttúrulegu löndum okkar að hafast þar við.

 Það var einnig tekið fram í fréttinni að álfar og huldufólk flyttust búferlum á nýársnótt. En mér vitandi gera þeir það einnig á þrettándanum. Svo það hlýtur að verða mikið fjör hjá þessum vinum okkar í nótt.

Kannski koma þeir við á einhverri þrettándabrennunni á leið sinni til nýrra húsakynna og taka þar þátt í söng og dansi og kveða með okkur ' Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.'

 En nú finnst mér bara vanta að einhver góðhjartaður aðili taki sig til og stofni sumarbúðir fyrir jólasveina.

Mér finnst ekki veita af því að þeir fái einhvers staðar aðstöðu til þess að slappa af fyrir jólavertíðina þar sem hún er alltaf að lengjast. Því nú byrjar vinnutími jólasveina í október og þriggja mánaða jólatörn er anskoti mikið,  jafnvel fyrir jólasveina.


« Fyrri síða

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband