Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

The Beach Life is Hot in Iceland

scan0001

Það væri munur ef strandlífið væri svona fjörugt hér á Íslandi eins og það er hjá þessum hvítabjörnum. Líklegt er að með vaxandi hita á jörðunni getum við mannfólkið  hér á landi skemmt okkur við sjóböð í hlýjum sjó í framtíðinni.
Aftur á móti má búast við því, þegar þar að kemur, að hvítabirnir verði útdauðir vegna bráðnunar á Grænlandsísnum. Og ekki bara þeir, heldur fjöldi annarra dýrategunda, ef svo heldur fram sem horfir, en vonandi tekst að snúa þessari óheillaþróun við svo bæði menn og skepnur geti notið lífsins á plánetunni okkar, Jörð.


Á þetta virkilega að vera frétt??

Ég hefði skilið það, að  rokið hefði verið með það í fjölmiðla, ef að Kevin hefði heitið því að veita drengjunum sínum óeðlilegt uppeldi. Það hefði aldeilis orðið saga til næsta bæjar!  En hann ætlar bara að  reyna að gera það sama og allir aðrir foreldrar, að veita börnunum sínum eðlilegt uppeldi.

Hvað er eiginlega svona fréttnæmt við það??

Þessi frétt er svona álíka hálfvitaleg eins og greint hefði verið frá því, að Federline hefði heitið því að gefa drengjunum sínum ætan mat. En þetta þykir kannski stórfrétt í Hollýwúddinni.


mbl.is Federline ætlar að veita drengjunum eðlilegt uppeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komdu, komdu til mín, fljótt!

Eins og hungraður
munnur ungbarnsins
leitar eftir brjósti
móður sinnar,
reikar hugur minn
til þín.

Þú, sem ert þarna, úti,
- einhvers staðar,
- komdu!
Komdu til mín, fljótt!
Því enginn
kyssir varir mínar,
enginn gælir við andlit mitt.

Ég strýk hálfopnar
varir mínar mjúklega,
svo mjúklega
og kyssi hendur mínar ákaft,
svo ákaft,
sem þar værir þú.

Þú, sem ert þarna, úti,
- einhvers staðar,
- komdu!
Komdu til mín, fljótt!


Ég er búin að standa á haus undanfarna daga

Ég dúklagði loksins þvottahúsið af mikilli list og lagði gúmmígólfista meðfram veggjunum. Ég tók bara einn vegg í einu þegar ég límdi listana á og vaskaði svo upp á milli, en ég hafði ekki vaskað upp í marga daga.
Svo málaði ég og blettaði þrjá stofuveggi, tvíþvoði stofugólfið, tók baðherbergið í gegn og þrjú herbergi algerlega, þurrkaði af,  pússaði gluggana, dúklagði svalirnar, þvoði þrjár þvottavélar, braut saman þvott og bauð svo fólki í kaffiboð.
Ég var með súkkulaðitertu og jarðarberjatertu og svo  kex og snakk. Sysir mín og systurdætur komu í kaffi og báðir synir mínir, ein tengdadóttir og þrjú lítil barnabörn. Dóttir mín og tengdasonur voru því miður fjarri góðu gamni, því þau eru að frílysta sig á málaskóla í Þýskalandi.
Krakkarnir voru voða hrifnir af Tító eins og venjulega, en hann faldi sig bak við tölvuna til þess að fá að vera í friði fyrir þeim. Hann veit af biturri reynslu að þau klípa í skottið á honum. Gosi graðnagli sást hvergi, eftir að krakkarnir komu í hús, en ég gekk beint að honum í hans uppáhalds felustað , á milli tveggja hægindastóla í stofunni, þar sem hann kúrði skíthræddur. Hann skaust í burtu þegar ég ætlaði að grípa í hnakkadrambið á honum og þaut  rakleitt fram í eldhús og faldi sig inni í opnum neðri skáp. Ég gat loksins dregið hann út og skutlaði svo honum og Tító upp í rúm og sagði þeim að fara bara og leggja sig .
Svo lokaði ég dyrunum að svefnherberginu og læsti þá inni. Þeir voru náttúrulega guðslifandi fegnir að sleppa svona billega frá börnunum og kúrðu sig alsælir niður í rúmið mitt.
Það var hasa fjör í boðinu og mikið spjallað og hlegið. Börnin voru upptekin við  að leika sér með dótið sem ég keypti einu sinni á tombólu hjá einhverjum krökkum, spes handa þeim til að dunda sér við þegar þau koma í heimsókn til mín. Nú man ég það, akkúrat þegar ég er að skrifa þetta, systir mín gaf mér lítinn konfektkassa þegar hún kom. Ég get varla beðið eftir því að gæða mér á innihaldinu þegar ég er búin að blogga.
Það sem stendur uppúr á deginum er samt björgun úr lífsháska sem ég framkvæmdi. Ég var úti á svölum þegar allir voru farnir og opnaði einn gluggan til þess að anda að mér útiloftinu og pústa út. Þegar ég svo lokaði  glugganum heyrði ég ofboðslegarn hávaða sem mér fannst berast utan úr garðinum í næstu blokk.
Ég hélt að einhver væri að slá grasið þar, en svo tók ég eftir því að Gosi graðnagli var allur orðinn upptendraður, hann starði á gluggann og mjálmgelti eins og kettir gera þegar þeir eru í vígahug. Þá rann loks upp fyrir mér ljós, ég hlaut að hafa hálfklesst hunangsflugu á milli glugga og fals þegar ég lokaði vindúinu. Ég opnaði gluggann varlega, jú mikið rétt þarna sat þessi elska í gluggafalsinu, svaka hlussa, feit og loðin.
Ég fór næstum með nefið niður að henni með öndina í hálsinum, til að gá hvort hún væri kannski milli heims og helju, en sá þá sem betur fer að hún virtist ekki mikið særð. Það var samt skrýtið að sjá, að hún eins og andaði, ótt og títt, litli búkurinn gekk upp og niður og hún titraði öll. Ég sem hélt að hunangsflugur önduðu með húðinni.
Ég gaf henni samt nánari gætur, enn þá smá áhyggjufull um heilsufar hennar, en sem betur fer tók hún þá til að snyrta sig hátt og lágt. Hún neri saman löppunum og kippti í  hausinn á sér,  sem hafði eitthvað aflagast við slysið, snurfusaði svo vængina vandlega og kom þeim í samt lag og endaði svo á því að  púðra á sér nefið.
Gosi greyið var alveg að fara yfrum á taugum yfir að fá ekki að veiða flugutítluna svo ég rak hann í burtu með óbótaskömmum þegar hann gerði sig  liklegan til þess að stökkva. Hann mjálmaði hátt í mótmælaskyni en lúskraðist samt í burtu í sömu mund og litla hunangsflugan hóf sig á loft með glæsibrag og flaug á braut.
Ég horfði á eftir henni, brosandi og mér var gleði í huga yfir því að hafa bjargað duglegum og vinnusömum einstaklingi úr lífsháska. Þetta var tvímælalaust toppurinn á deginum, en ég er að pæla í  því að fjarlæga blómapottinn með rósunum innan við svalagluggann og setja hann á heppilegri stað.
Ykkur finnst það kannski skrýtið en ég hef oft hugsað með sjálfri mér að hunangsflugur væru svo krúttlegar, að ef þær væru á stærð við púðluhund gæti ég vel hugsað mér að eiga eina sem gæludýr.

Það eru aldeilis uppi á þeim typpin við Vatnajökul

- enda er náttúran alltaf söm við sig. Ætli þetta sé verslunarmannahelgar- fiðringur eins og hjá mörgu mannfólkinu?
mbl.is Ný jarðskjálftahrina við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki vaninn

að rómantíkin hverfi eins og dögg fyrir sólu, eftir að ástfangið fólk kemur niður af rósrauða skýinu sem einkennir öll sambönd í byrjun? þá á víst að taka við af ofurhrifningunni, tilfinningin að elska og virða maka sinn í blíðu og stríðu.
Því miður eru þeir fáir sem bera gæfu til þess að rækta gott hjónaband. Ég tala nú ekki um ef við bætist álag og stress, sem fylgir því að lifa lífi sínu frammi fyrir augum alheimsins.
Það er ekki það sama gæfa og gjörfileiki, það sýna því miður óteljandi skilnaðir og  margskonar áföll í lífi fallega og fræga fólksins í Hollywood.
Kannski Brad og Jennifer nái saman á ný, það er aldrei að vita.
mbl.is Brestir í sambandi Brads og Angelinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef öðlast þú frægð og frama

 - ferðu að reykja, marí - júana .
Sniffar kókein svo fáirðu kick,
það er kreisí hve þú verður sick

 


mbl.is Batt enda á sambandið við Doherty eftir að hann daðraði við grúppíur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband