Leita í fréttum mbl.is

Ég er búin að standa á haus undanfarna daga

Ég dúklagði loksins þvottahúsið af mikilli list og lagði gúmmígólfista meðfram veggjunum. Ég tók bara einn vegg í einu þegar ég límdi listana á og vaskaði svo upp á milli, en ég hafði ekki vaskað upp í marga daga.
Svo málaði ég og blettaði þrjá stofuveggi, tvíþvoði stofugólfið, tók baðherbergið í gegn og þrjú herbergi algerlega, þurrkaði af,  pússaði gluggana, dúklagði svalirnar, þvoði þrjár þvottavélar, braut saman þvott og bauð svo fólki í kaffiboð.
Ég var með súkkulaðitertu og jarðarberjatertu og svo  kex og snakk. Sysir mín og systurdætur komu í kaffi og báðir synir mínir, ein tengdadóttir og þrjú lítil barnabörn. Dóttir mín og tengdasonur voru því miður fjarri góðu gamni, því þau eru að frílysta sig á málaskóla í Þýskalandi.
Krakkarnir voru voða hrifnir af Tító eins og venjulega, en hann faldi sig bak við tölvuna til þess að fá að vera í friði fyrir þeim. Hann veit af biturri reynslu að þau klípa í skottið á honum. Gosi graðnagli sást hvergi, eftir að krakkarnir komu í hús, en ég gekk beint að honum í hans uppáhalds felustað , á milli tveggja hægindastóla í stofunni, þar sem hann kúrði skíthræddur. Hann skaust í burtu þegar ég ætlaði að grípa í hnakkadrambið á honum og þaut  rakleitt fram í eldhús og faldi sig inni í opnum neðri skáp. Ég gat loksins dregið hann út og skutlaði svo honum og Tító upp í rúm og sagði þeim að fara bara og leggja sig .
Svo lokaði ég dyrunum að svefnherberginu og læsti þá inni. Þeir voru náttúrulega guðslifandi fegnir að sleppa svona billega frá börnunum og kúrðu sig alsælir niður í rúmið mitt.
Það var hasa fjör í boðinu og mikið spjallað og hlegið. Börnin voru upptekin við  að leika sér með dótið sem ég keypti einu sinni á tombólu hjá einhverjum krökkum, spes handa þeim til að dunda sér við þegar þau koma í heimsókn til mín. Nú man ég það, akkúrat þegar ég er að skrifa þetta, systir mín gaf mér lítinn konfektkassa þegar hún kom. Ég get varla beðið eftir því að gæða mér á innihaldinu þegar ég er búin að blogga.
Það sem stendur uppúr á deginum er samt björgun úr lífsháska sem ég framkvæmdi. Ég var úti á svölum þegar allir voru farnir og opnaði einn gluggan til þess að anda að mér útiloftinu og pústa út. Þegar ég svo lokaði  glugganum heyrði ég ofboðslegarn hávaða sem mér fannst berast utan úr garðinum í næstu blokk.
Ég hélt að einhver væri að slá grasið þar, en svo tók ég eftir því að Gosi graðnagli var allur orðinn upptendraður, hann starði á gluggann og mjálmgelti eins og kettir gera þegar þeir eru í vígahug. Þá rann loks upp fyrir mér ljós, ég hlaut að hafa hálfklesst hunangsflugu á milli glugga og fals þegar ég lokaði vindúinu. Ég opnaði gluggann varlega, jú mikið rétt þarna sat þessi elska í gluggafalsinu, svaka hlussa, feit og loðin.
Ég fór næstum með nefið niður að henni með öndina í hálsinum, til að gá hvort hún væri kannski milli heims og helju, en sá þá sem betur fer að hún virtist ekki mikið særð. Það var samt skrýtið að sjá, að hún eins og andaði, ótt og títt, litli búkurinn gekk upp og niður og hún titraði öll. Ég sem hélt að hunangsflugur önduðu með húðinni.
Ég gaf henni samt nánari gætur, enn þá smá áhyggjufull um heilsufar hennar, en sem betur fer tók hún þá til að snyrta sig hátt og lágt. Hún neri saman löppunum og kippti í  hausinn á sér,  sem hafði eitthvað aflagast við slysið, snurfusaði svo vængina vandlega og kom þeim í samt lag og endaði svo á því að  púðra á sér nefið.
Gosi greyið var alveg að fara yfrum á taugum yfir að fá ekki að veiða flugutítluna svo ég rak hann í burtu með óbótaskömmum þegar hann gerði sig  liklegan til þess að stökkva. Hann mjálmaði hátt í mótmælaskyni en lúskraðist samt í burtu í sömu mund og litla hunangsflugan hóf sig á loft með glæsibrag og flaug á braut.
Ég horfði á eftir henni, brosandi og mér var gleði í huga yfir því að hafa bjargað duglegum og vinnusömum einstaklingi úr lífsháska. Þetta var tvímælalaust toppurinn á deginum, en ég er að pæla í  því að fjarlæga blómapottinn með rósunum innan við svalagluggann og setja hann á heppilegri stað.
Ykkur finnst það kannski skrýtið en ég hef oft hugsað með sjálfri mér að hunangsflugur væru svo krúttlegar, að ef þær væru á stærð við púðluhund gæti ég vel hugsað mér að eiga eina sem gæludýr.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Það er ekki að spyrja að dugnaðinum í minni. Til hamingju.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 7.8.2007 kl. 00:51

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Vá hvað þú hefur verið aktív undanfarið. og bjargar svo lífi í ofanálag. Hungangsflugur eru krúttlegar. En ég veit ekki með óskastærðina þína.

Jóna Á. Gísladóttir, 7.8.2007 kl. 00:56

3 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Oh ég lenti í þessi sama og þú með hunangsflugu, hún var slösuð í glugganum hjá mér littla greyið, ég tók pappír og setti hana út. Veit ekki hvort hún dó eða ekki.

Kristín Katla Árnadóttir, 7.8.2007 kl. 00:59

4 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Ég var aftur á móti í því alla helgina að myrða hunangsflugur, geitunga og hrossaflugur. Sem fylgja sveitadvölinni. Karlinn er svo hvumpinn þegar hann verðu var við þessar elskur svo ég er  orðinn ansi flink í flugnaveiðum með eldhúsrúllubréf að vopni.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 7.8.2007 kl. 01:01

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Oooohhh! Hrossaflugur! Ása Hildur, ég fæ hroll þegar ég pikka þetta orð, 'hrossafluga.'  Ég er sjúklega hrædd við þær, því mér finnst þær vera alveg eins og fljúgandi köngulær með þessar ógeðslega löngu lappir sínar.
Ég kalla samviskulaust á Gosa graðnagla,  ef þær slysast inn til mín.
Ég æpi bara ' Gosi fluga', og bendi honum í áttina að henni og hann er svo gáfaður að hann skilur mig og stekkur alltaf til og klófestir  þær undantekningarlaust.

Svava frá Strandbergi , 7.8.2007 kl. 01:19

6 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þú ert svo dugleg og mikil dýravinur.

Kristín Katla Árnadóttir, 7.8.2007 kl. 11:40

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Frábær færsla, en segðu mér nú satt, gerðirðu þetta allt? ég verð bara lúin að hugsa um svona mikla vinnu. Hrossaflugur voru uppáhalds snakk einnar kisunnar minnar, ég veiddi þær á löppunum úti og færði henni lifandi. Hungangsflugur eru krútt. Vinakveðja til ykkar.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.8.2007 kl. 12:45

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já Ásdís, ég gerði þetta allt og það var meira að segja eins og ég gæti ekki stoppað að taka til. Ég er kannski orðin svona manísk með aldrinum? Þú ert nú hetja að hafa getað tekið upp hrossaflugu, oj, þær eru svo ógeðslegar. það má segja að greyin séu einar af þeim sem líða fyrir útlitið. Vinakveðja til baka.

Kristín Katla.

Svava frá Strandbergi , 7.8.2007 kl. 15:17

9 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já Ægir, ég varð að gera það sjálf, því það hefði kostað mig fjörutíu þúsund krónur að fá fagmenn í verkið og því tímdi ég ekki. Maður getur allt sem maður ætlar sér, það segir reynslan manni.

Svava frá Strandbergi , 7.8.2007 kl. 15:38

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hrossaflugur eru einhverjar saklausustu og blíðlyndustu flugur sem til eru og kássast aldrei upp á neinn.  Hvers eiga þær að gjalda?

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.8.2007 kl. 01:05

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Það er útlitið Siggi,  sem þær líða fyrir greyflugurnar. Jafnvel þó þær séu hinar mestu geðprýðisskepnur eins og þú segir og geri ekki flugu, nei afsakið, manni mein.

Svava frá Strandbergi , 8.8.2007 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband