Leita í fréttum mbl.is

Endurfæðingin

Ég mætti gömlum manni á leið minni heim úr vinnu í dag. Hann var með hvítt alskegg og á höfði bar hann ljósgræna húfu, sem mér virtist í fyrstu vera skátahúfa.
Gat það verið að þessi aldni maður væri skáti? Hugsaði ég með sjálfri mér.
En við frekari umhugsun fannst mér það afar ólíkleg tilgáta, því ekki gat ég sett mér hann fyrir sjónir sitjandi við varðeld syngjandi skátasöngva, né marsérandi í skrúðgöngu á sautjánda júní í grenjandi rigningu. Hann var einfaldlega of aldurhniginn og feitur til þess að geta tekið þátt í þess konar ævintýrum.
Ég gaf honum nánari gætur, hvíta alskeggið, bústnar rauðar kinnarnar, það vantaði bara rauða húfu í stað þeirrar grænu til þess að hann gæti verið jólasveinn. Ég sló því föstu að sú væri raunin,hann hlyti að vera dulbúinn jólasveinn. Líklega var hann að frílysta sig hér í höfuðborginni og njóta þess að hverfa í fjöldann svona óeinkennisklæddur, nú þegar mesta jólaæðið var runnið af mannfólkinu, enda komið fram undir vor.
Ég leit enn einu sinni á öldunginn, nokkuð ánægð með þessa niðurstöðu mína, en samt fannst mér eins og eitthvað væri við hann sem passaði ekki alveg.
Gamli maðurinn var þegar betur var að gáð ekki nógu jólasveinalegur í hreyfingum, hann hafði frekar göngulag ungs manns og hann var nánast barnslegur í fasi. Og þessi ljósgræna húfa, græn eins og vorið...
Skyndilega varð mér ljóst hver hann var.
Hann var vorið sem árvisst rennur sitt æviskeið uns það háaldrað deyr í fyllingu tímans, til þess eins að endurfæðast sem hið unga græna vor og boða sólbjarta langa sumardaga

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Elsku kæra vor....auðvitað var þetta vorið sem þú mættir. Gustaði ekki líka hlýjum blæ..andardrætti frá karlinum? Með græn strá í nefi og eyrum.

Þú ættir að gefa honum mynd þessum vinalega karli og anda hans.

Sumarkveðja frá Englandi

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 17.4.2007 kl. 08:18

2 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Hahahaha, þú ert alveg meyriháttar, glæsilegt.

Sigfús Sigurþórsson., 17.4.2007 kl. 08:21

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í nótt var hörkufrost víða um land! Kannski að kallinn sé orðinn elliær! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.4.2007 kl. 10:35

4 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Elsku gamli maðurin.

Kristín Katla Árnadóttir, 17.4.2007 kl. 13:41

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Bless gamli maður takk fyrir vorið 

Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2007 kl. 14:49

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.4.2007 kl. 15:22

7 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já elsku kallinn, ég hitti hann einmitt rétt hjá Bónus í Fellunum og hann var reyndar með græn strá í í nefi og eyrum.  En eins og Sigurður segir er hann liklega orðinn elliær og meira en það, því hann er að heyja sitt dauðastríð til þess að geta síðan endurfæðst sem nýtt ungt vor.

Svava frá Strandbergi , 17.4.2007 kl. 16:31

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Var þetta ekki bara einhver grænjaxl?

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.4.2007 kl. 22:40

9 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Nei Sigurður, hann var alveg fullþroskaður.

Svava frá Strandbergi , 17.4.2007 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband