Leita í fréttum mbl.is

Mig langar svo á deit með dauðum djákna, eða bara einhverjum...

djakninn_a_myrka

 

Djákni á deiti 

 

Inni í holu brjósti
mínu
hef ég dúkað borð fyrir þig
Garún, Garún -fyrir þig.

Rauðvín í glösum
þar sem rosabaugur skín
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum
Garún, Garún?
Þar sem rosabaugur skín.

 

Það er einhver óeirð í mér. Mig langar að fara eitthvað út að skemmta mér, dansa og svoleiðis, þó ég verði nú örugglega hölt eftir kvöldið. Ég hef ekki farið á skemmtistað í óratíma. Er alltaf svo blönk. Fer bara í bíó og á myndlistarsýningar.
Ætla að kíkja á tvær opnanir á morgun. þá fyrri hjá honum Berg Thorberg kaffimálara bloggvini mínum. Hann verður að sýna í Art-Iceland, þar sem meiningin er að ég sýni sjálf í febrúarlok og hin opnunin er hjá Katrínu bloggvinkonu minni sem opnar sýningu í Uppsölum á  Hótel Reykjavík.
Það verður örugglega gaman að kíkja til þeirra. 

Annars er ég búin að vera með einhverja ólukku í maganum undanfarið, hreina og beina ælupest bara. Ég hef verið eitthvað vangæf í meltingarfærunum síðastliðna mánuði. Þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin og er að sofna, hrekk ég oft upp við svo mikinn verk undir bringspölunum.
Það er svo sárt að það er eins og mér sé gefið rosalegt högg undir bringspalirnar svo ég æpi oft upp yfir mig. Stundum æpi ég uppúr svefninum þegar ég fæ þessi högg

Ég hef löngum verið léleg í maganum. Hef tvisvar fengið alvarleg magasár og eyddi í bæði skiptin tveimur vetrum á sjúkrahúsum. Síðan hef ég stanslaust verið með magabólgur og er orðin hundleið á þessu.  Svo kannski maður hafi ekki svo mikið að gera við að fara á deit eða ball svona yfirleitt.

Annars skellti ég mér í sund um daginn en synti samt ekki neitt. Gerði bara sundæfingarnar mínar eins og í leiðslu og lét mig svo fljóta á bakinu og ímyndaði mér að ég svifi þyngdarlaus um úti í geimnum. Ég slappaði svo vel af að bara blá nefbroddurinn stóð uppúr vatninu og ég var komin í sæluvímu. En svo hrökk ég óþyrmilega útúr þessu ástandi þegar nebbakúlan fór óvart á bólakaf og vatnið fossaði inní  nasirnar á mér og ofan í lungu.
Ég hóstaði einhver ósköp og fannst ég vera að drukkna.  Þetta var ekki beint glæsilegt. Satt að segja held ég að ég hafi verið ákaflega hallærisleg að sjá. Eins og ég hef hingað til alltaf verið klár í því að láta mig fljóta svona á bakinu. En svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Á sunnudaginn er meiningin að ömmubörnin Elísa Marie 6 ára og Daníel 5 ára komi og baki með mér piparkökur og ég þarf að kaupa matarlit, rauðan og grænan svo þau geti málað á kökurnar með  lituðum glassúr. Við ætlum að hafa það kósý og spila jólalög á meðan við stöndum í bakstrinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er stálsleginn í maganum en ósköp lélegur í heilanum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.11.2007 kl. 20:59

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Er heilinn í þér ekki farinn að visna, mig minnir að þú hafir einhvern tíma sagt það. Ég ætla að koma í heimsókn í næstu viku, ef þú verður þá viðræðuhæfur  vegna heilabilunarinnar. En ég get þá allavega talað við Mala.

Svava frá Strandbergi , 30.11.2007 kl. 21:04

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Góða skemmtun við baksturinn og góða helgi.

Svava frá Strandbergi , 30.11.2007 kl. 22:00

4 Smámynd: www.zordis.com

Malla málin ekki gód ... strjúktu hann í hringi, sólarátt og hugsaðu jákvæðar hugsanir.  Ég fer með þér á báðar sýningarnar í huganum!

Ohhhh ... hvað það væri gaman að taka þátt í þessum göngutúrum á sýningarnar og sundlaugarflotinu.  Þú þarft að fá þér eins og listsundlaugar stelpurnar en þær eru með svona nefloku (eru eins og litlar geimverur) þannig að vatnið fer ekki niður í lungu ....

knús á þig kæra .... og góða helgi!

www.zordis.com, 30.11.2007 kl. 22:09

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG ER VISIN VOND OG SLÖK

VILL MIG ENGINN LENGUR

VERÐ AÐ AXLA MÉR UM BÖK

ÞAÐ ER GÓÐUR FENGUR

ef þú skilur þetta líður þér betur en mér.  Kveðja á þig og kisur.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.11.2007 kl. 22:50

6 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég verð þá að strjúka Mallakútinn minn í marga hringi, í sólarátt segirðu?

Ég var einmitt að hugsa um að fá mér klemmu á nefið, bara venjulega þvottaklemmu, fattaði ekkert með fínu klemmurnar. En ef ég set klemmu á nefið hvernig á ég þá að anda, með munninn í kafi og klemmu á nefinu? Hahaha þá kafna ég örugglega en drukkna ekki. Svo þetta er ekki svo góð hugmynd hjá okkur Zordís mín.

Ég er búin að senda myndina, en ég var því miður ekki nógu ánægð með prentunina. Veit ekki hvað þér finnst. 

Ásdís ég skil tvo þriðju af vísunn, svo við erum svona álíka góðar eða slæmar. Það fer allt eftir því hvernig á það er litið.  

Svava frá Strandbergi , 30.11.2007 kl. 23:16

7 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Ekki líst mér á deit með dauðum djákna og alls ekki með því að "reyna" að drukkna í lauginni! Líst betur á málverkasýningaferðir. Kannski við sjáumst þá á morgun hjá Katrínu. Ég er að vonast til að komast þangað.

Það er nú ekki gott að vera svona í maganum. Vildi að ég gæti sent á þig galdur til að laga þetta en kann það ekki. Ég skal hins vegar senda þér góðar hugsanir, ljós og bænir. Annars eru nú læknarnir kannski skástir í þessu... og malandi kettir

Bestu kveðjur og góða helgi

Ragnhildur Jónsdóttir, 1.12.2007 kl. 01:39

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Vonandi sjáumst við hjá Katrínu, Ragnhildur. Já kisur eru heilsubætandi. það hefur verið vísindalega rannsakað að það róar mann að strjúka ketti, maður slakar á og það hefur verið mælt að það hægir á hjartslættinum.
Svo eru kettir ótrúlega blíðar og góðar verur, allavega við eiganda sinn, en kannski ekki við mýs og fiðurfé. En það erum við ekki heldur við drepum sjálf mýs á ómannúðlegan hátt og skjótum  fugla, veiðum þá í háfa eða ölum þá upp inni í rafmagnslýstum skemmum og slátrum þeim og étum þá svo.

Þakka þér fyrir góðar hugsanir, ljós og bænir. Sendi þér það sama. 

Svava frá Strandbergi , 1.12.2007 kl. 01:50

9 Smámynd: www.zordis.com

Hummm, þessar sunddrottningar koma víst upp á yfirborðið með reglulegu millibili til að anda!  Það er ólán að andast fyrir klaufaskap! 

www.zordis.com, 1.12.2007 kl. 10:25

10 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Hrump! Ég hef líka verið kölluð Hans-ína klaufi.

Svava frá Strandbergi , 1.12.2007 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband