Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Er að fara á sólarströnd á morgun

Verð í viku á Kanarí, svo ég segi bara bless í bili. Smile

Elsta barnið, sönn dæmisaga handa trúlofuðum stúlkum

Þegar krakkarnir voru litlir þurfti ég alltaf að mata þau öll fjögur á matmálstímum, því ekkert þeirra var komið á þann aldur að geta borðað sjálft.
Yngsta barnið var átta mánaða stelpa svo átti ég tvíbura, sták og stelpu sem voru rúmlega einsoghálfs árs og svo var elsta barnið, þrjátíuogeins árs gamall strákur.
Það var engin smávinna að koma matnum oní alla þessa krakka.
Ég var líka farin að hafa áhyggjur af því að þrjátíuogeins árs barnið hlyti að vera eitthvað misþroska, því ég vissi til þess að börn á fertugsaldri voru almennt farin að borða sjálf.
Það hlaut því að vera eitthvað meira en lítið bogið við þennan elsta strák minn. Satt að segja var ég líka orðin dauðþreytt á því að mata allan þennan krakkaskara. Ég hafði varla tíma til þess að borða nokkuð sjálf og þess utan voru krakkaskammirnar svo matgráðug að það var aldrei agnarögn eftir handa mér, þegar þau voru loksins búin að ljúka sér af.
Ég ákvað því að gera tilraun með að hætta að mata elsta strákinn og tékka á því hvort hann gæti ekki bjargað sér smávegis sjálfur. Mér fannst þetta reyndar dálítið grimmdarlegt af mér en eitthvað varð ég að taka til bragðs til þess að ýta undir þroska ósjálfbjarga ungans míns. Ekki myndi hann eiga sér viðreisnar von í lífinu ef það þyrfti alltaf að mata hann.
En litli púkinn var ekki eins ósjálfbjarga og hann vildi vera láta. Hann laumaðist til þess að stela af matarpeningunum og læðupokaðist svo út í sjoppu og keypti sér pulsu og kók.
Ég varð eiginlega ekkert ill út í hann í fyrstu því gleðin yfir því hve úrræðagóður hann virtist vera þegar á reyndi yfirgnæfði reiði mína. Þó var ég svolítð óánægð með það að hann skyldi ekki bjóða systkinum sínum með sér, fyrst hann stóð í essu  á annað borð. Nóg tók hann allavega af peningum, því peningakrukkan var alltaf hálftóm eftir hann.
En illu heilli komst það upp í vana hjá blessuðum drengnum að fara einn út að borða. Hann hélt áfram að stela af matarpeningunum svo ég átti nánast aldrei eftir neina aura fyrir mat handa aumingja yngri börnunum.
Ég varð sífellt óánægðari með hann. Þó ég verði nú að játa það, að innst inni var ég svolítið stolt af stráknum yfir því að hafa mannast svo mikið að hafa nú loksins orðð vit á þvi að næra sig sjálfur, þó svo að óneitanlega kæmi það niður á yngri systkinum hans.
Einn góðan veðurdag tilkynnti hann mér svo að hann ætlaði að flytja út. Nú vissi hann hvernig ætti að fara að því að borða hjálparlaust og hann gæti því örugglega komið sér áfram í lífinu án minnar aðstoðar.
Svo nú þarf ég aðeins að mata þrjú börn á matmálstímum og það er ekki hægt að neita því að borðhaldið er mér miklu auðveldara en áður því það  munar alveg órtúlega mikið um þann elsta.

Gullkorn

Ef ekkert regn væri myndi sólin ekki skína svo skært, ef engin nótt væri myndi dagurinn missa ljóma sinn og til þess er sorgin að við metum gleðina réttilega.

 Höf. óþekktur.  


Heimsókn

Ég fór að heimsækja son minn og tengdadóttur í dag með systur minni. Ég var með  síðbúna afmælisgjöf með mér til Elísu Marie sem varð sex ára síðastliðinn laugardag en ég komst ekki í afmælið hennar. Ég gaf henni skólatösku í afmælisgjöf, bleika að sjálfsögðu. Hún fer í sex ára bekk í Landakotsskóla næsta vetur. Hún var bara ánægð með töskuna og sýndi mér líka stolt pennaveski sem hún hafði fengi í afmælisgjöf frá frænda sínum. 

Bróðir hennar hann Daníel var dálítið afbrýðisamur yfir afmælisgjöfinni en hann er fimm ára og fer líka í  sama skóla og systir hans næsta vetur. Í Landakotsskóla byrja börnin fimm ára í skóla. Þau munu koma til með að læra ensku og frönsku í fyrstu bekkjunum í skólanum. Það er aldeilis munur þá verða þau talandi á fjórum tungumálum íslensku, filippísku, ensku sem þau kunna fyrir og svo frönsku. Það ætti aldeilis að verða eitthvað úr þeim blessuðum börnunum.

Við fengum kaffi og horfðum svo á þátt í sjónvarpinu um börn með Downs heilkenni en yngsti bróðir þeirra Jónatan Davíð tveggja  og hálfs árs fæddist með það heilkenni. Hann talar ekki mikið en er því betri í táknmáli og sagði meðal annars amma á táknmáli. Ég ætla að ná í bók um táknmál á bókasafninu og læra þetta aðal mál hans Jónatans litla sonarsonar míns.

Nú get ég heimsótt barnabörnin oftar því þau eru flutt hérna í nágrennið og ef ég get ekki labbað til þeirra út af hnénu og bakinu þá tek ég bara leigubíl

Hérna er mynd af Elísu Marie þegar hún var þriggja ára.scan0009


Nornin

Óla hrökk upp með andfælum, hún hafði sofnað út frá sjónvarpinu að venju. Hún var alein í stofunni. Jónsi löngu kominn upp í rúm án þess að hafa fyrir því að vekja hana. Hún var sársvöng í enn einum megrunarkúrnum og nú æpti magi hennar á eitthvað sætt, helst súkkulaði, hún var sjúk í súkkulaði. Hún varð að fá súkkulaði núna strax! Skítt með þennan vonlausa megrunarkúr hugsaði hún ergileg.

Hún nennti ekki út í sjoppu svo henni datt í hug að vekja Jónsa eins og svo oft áður. Hann var ekki óvanur því að endasendast fyrir hana þegar sætindalöngunin náði tökum á henni, en svo áttaði hún sig á því að komið var fram yfir miðnætti og löngu búið að loka helvítis sjoppuholunni á horninu.
Hún gæti náttúrulega pantað leigubíl og sent bílstjórann í einhverja næturbúllu eftir súkkulaði. Hún hafði gert það nokkrum sinnum en nú veigraði hún sér við því þar sem stúlkan á stöðinni hafði verið svo dónaleg síðast þegar hún hringdi. Hún hafði spurt hana í hæðnistón hvort leigubílstjórinn ætti virkilega bara að kaupa eitt súkkulaði stykki.

Óla hafði fokreiðst. Hvern fjandann var þessi stúlkukind að skipta sér af því hvað leigubílstjórarnir keyptu fyrir kúnnana. Það kom henni ekki nokkurn skapaðan hlut við. Hún hafði hellt sér yfir þessa óforskömmuðu glyðru og skellt svo á hana og nú þorði hún ekki fyrir sitt litla líf að hringja oftar.

Óla ranglaði fram í eldhús og leitaði í öllum skápum að súkkulaðibita en þar var ekkert að finna. Það var ekki einu sinni til Nesquick eða smá súkkulaðbúðingur hvað þá meira. Hún var orðin ösku þreifandi ill út í Jónsa. Hún hafði vonað innst inni að hann hefði keypt súkkulaði. Hann gerði það stundum án þess að hún bæði hann um það, sérstaklega þegar hún var í megrun, svo fékk hann alltaf óbótaskammir þegar hún var búin að gleypa í sig góðgætið.
Þú vilt bara að ég sé feit sagði hún ætíð við hann eftirá ásamt ýmsu öðru ljótu og fór svo að hágráta.

Jónsi vissi ekki lengur hvað sneri upp eða niður þegar kona hans átti í hlut og reyndi því að hegða sér eins og í spilamennsku og sagði oftast pass.

Óla heyrði eittvað þrusk fyrir aftan sig og sperrti eyrun. Þetta var auðvitað Jónsi að koma fram til þess að fá sér nætursnarl. það voru fastir liðir eins og venjulega.

"Nei ertu vakandi elskan"? Sagði Jónsi þvoglumæltur þegar andlit hans birtist fyrir hornið á ísskápnum. Ólu fannst þetta svo heimskulega spurt að henni datt ekki til hugar að ansa honum.
"Ég er svo svangur", tautaði Jónsi. "Það eru nú fleiri", hreytti Óla illyrmislega út úr sér.
Jónsi hélt áfram. "Það er svo undarlegt hvað ég verð alltaf matlystugur af þessum svefnpillum".
" Ég vakna undantekningarlaust eftir svona klukkutíma svo glorhungraður að ég verð bara að fá mér eitthvað að éta" , tafsaði hann. Óla horfði á bónda sinn. Hann var ekki beint fyrir augað núna. Bara á nærbuxunum einum fata sem héngu einhvern veginn utan um hann rétt fyrir neðan ístruna. Bakið bogið eftir tugi ára erfiðisvinnu og æðahnútar á fótleggjunum og til að kóróna allt saman var hann vita tannlaus sem gerði það að verkum að nefið virtist enn stærra en venjulega.

Jónsi opnaði ísskápinn og beygði sig niður til að ná í mjólk og Ólu langaði allt í einu til þess að sparka í afturendann á honum Eitt þrumuskot í rassgatið og hlaupa svo eins og Andskotinn í burtu, en hún sat á sér og hálfskammaðist sín. Var hún virkilega svona vond manneskja? Hugsaði hún skelfd.
"Ég er líka að drepast úr hungri", muldraði hún lágum rómi. Ha! Sagði Jónsi með hausinn á kafi inni í ísskápnum. "Mig dreplangar svo í súkkulaði", æpti Óla. "Hvað er þetta manneskja". "Það er óþarfi að öskra svona". "Þú vekur alla í húsinu með þessum látum", svaraði Jónsi snöggur upp á lagið.
"Af hverju keyptirðu ekkert súkkulaði handa mér"? Vældi Óla ásakandi um leið og Jónsi teygði sig eftir matarkexinu. "Hu! Mér datt það ekki í hug", ansaði Jónsi. "Þú spikfitnar af því", bætti hann við. "Þú átt bara að fá þér mjólk og kex eins og ég", sagði hann rogginn um leið og hann snerist á hæli til að labba með bitann upp í rúm.

Ólu langaði mest til að myrða hann með köldu blóði. Að hann skyldi segja þetta, sem sjálfur var alltof feitur. Honum væri mátulegt að renna á rassgatið með mjólkina hugsaði hún í heift sinni.
Í sama bili glopraði Jónsi glasinu út úr höndum sér svo það skall í gólfið og innihaldið myndaði stóran poll fyrir framan ísskápinn.
Jónsa varð svo mikið um að honum skrikaði fótur í bleytunni. Hann æpti upp yfir sig um leið og hann missti jafnvægið og kexið og lenti á óæðri endanum í miðjum mjólkurpollinum.

Óla starði á Jónsa í forundran þar sem hann sat á gólfinu rennblautur eins og hundur af sundi dreginn með matarkexið á floti við hliðina á sér. Svo fór hún að hlægja. Hún hló tryllingslega. Benti á eiginmann sinn og hló. "Þetta var gott á þig", gat hún loks stunið upp á milli hláturrokanna.
Svo hélt hún áfram að hlægja einkennilega holum hlátri. Andlitsdrættir hennar máðust út og umbreyttust síðan í ófrýnilega grettu svo að rétt grillti í illúðlegar gular glyrnurnar.


Krían mín litla

Mér þykir það alltaf stórfrétt þegar krían kemur á vorin, þá fyrst finnst mér öruggt að það sé komið sumar. Ég tengist líka kríunni sterkari böndum en margir aðrir  því sem barn höfðum við  kríu sem gæludýr á heimilinu í heilan vetur.

Pabbi hafði fundið veika kríu niður við Tjörn sem ekki hafði haft krafta til þess að fylgja kynsystrum sínum eftir þegar þær flugu suður á bóginn um haustið.

Krían varð mjög hænd að okkur krökkunum og það var gaman að gefa henni að éta ýsustrimla sem mamma skar niður í hæfilega bita.

Hún átti sér ból undir eldavélinni í pappakassa með mjúku fóðri og hún vék sjaldan frá bæli sínu nema þegar hún fékk matinn sinn, þá flögraði hún uppá eldhúsborðið og át úr lófa okkar barnanna.

Aldrei minnist ég þess að hún hafi flogið um íbúðina enda var hún máttlaus í vængjunum . Svona leið veturinn og krían virtist þrífast vel á ýsunni.
En svo kom sá óheilladagur þegar mamma  aldrei þessu vant keypti sardínur í olíu til þess að hafa ofan á brauð. 
Krían sá okkur krakkana gæða okkur á þessum girnilega fiski og flögraði upp á borð. til þess að forvitnast nánar um þetta góðgæti.
Við vildum ekki gefa henni með okkur héldum að olían á sardínunum gæti kannski verið óhollt fyrir hana, en því miður var mamma ekki á sama máli og hélt einni sardínunni beint fyrir framan nefið á henni. Krían var ekki lengi að sporðrenna fiskinum og vildi meira. Um kvöldið var hún orðin fárveik, hún lá þarna undir eldavélinni í pappakassanum sínum og sífellt dró meira og meira af henni.

Ég var harmi slegin en ég var líka mjög reið út í mömmu fyrir að hafa gefið kríunni sardínurnar, því Þó ég væri aðeins tólf ára gömul var ég þess fullviss að krían hefði ekki þolað olíuna á þeim og væri þess vegna að deyja.
Ég lá þarna á eldhúsgólfinu við hliðina á litla pappakassanum sem var heimili kríunnar litlu sem nú háði sitt kvalafulla dauðastríð. Tárin runnu niður vanga mína og ég barðist við reiðina út í mömmu sem hafði verið svona fávís að gefa henni þennan óþverra að éta.  Samt var ég ennþá reiðari út í elsta bróður minn og systur sem tóku þennan harmleik ekki nær sér en svo að þau skemmtu sér hið besta við að dansa tangó á eldhúsgólfinu.

 Mér fannst það taka óratíma fyrir litlu kríuna mína að berjast við dauðann og ég þjáðist mikið við að  horfa upp á þessa vonlausu baráttu. Svo var þetta skyndilega búið,  litlu svörtu augun hennar brustu og hún var farin, burt úr þessum heimi.  Heimi þar sem hún varð að húka í gömlum pappakassa undir eldavél  í þröngum hýbýlum mannanna, í stað þess að fljúga frjáls um óravíðáttur himingeimsins og láta vindanna lyfta sér í hæstu hæðir.

Það tók mig langan tíma að fyrirgefa mömmu því barnssálin sem elskar dýrin á erfitt með að skilja mistök foreldra sinna. Á endanum gat ég þó fyrirgefið henni og með tímanum skildi ég að litla krían hefði líklega aldrei getað lifað eðlilegu lífi úti í náttúrunni, þó hún hefði svo sannarlega ekki átt skilið svona hræðilegan dauðdaga.

En á hverju vori þegar krían kemur minnist ég litlu kríunnar minnar og ég trúi því að sál hennar lifi í öðrum heimi þar sem allir, bæði menn og dýr eru heilbrigð og hamingjusöm.


mbl.is Krían komin á Nesið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég fékk yndislega fallegan blómvönd

í dag og er alsæl með mæðradaginn

Góða nótt 


Hugur einn það veit

Hugur einn það veit,
er býr hjarta nær
einn er hann sér um sefa;
öng er sótt verri
hveim snotrum manni
er sér engu að una.

 

 

Úr Hávamálum 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband