Leita í fréttum mbl.is

Bænalestur, Bolavísur and The Boogie Man.

DSC00002 Fossinn

 

Ég var boðin í mat til systur minnar í gær. Svo þegar ég kom þar voru barnabörnin mín þrjú stödd þar. Guðjón sonur minn hafði komið óvænt með þau.
Það var voða gaman að hitta börnin. Ég hjálpaði Elísu með heimalærdóminn, hún er alveg orðin læs. En henni finnst reikningurinn ekki eins skemmtilegur.
Daníel litli var með magapest og ekki beint í essinu sínu. en var samt með bók í höndunum eins og venjulega, þó er hann bara fimm ára.
Ég man alltaf þegar hann sat á koppnum 2ja ára gamall með bók í hönd og sagðist vera að lesa. Mamma hans segir að hann verði alveg eins og Siggi frændi hans, bróðir minn, þ.e.a.s. bright! Heyrirðu það Siggi? Hann er einnig svolítið líkur þér þegar þú varst lítill. 

Svo þegar börnin fóru að sofa, en þau gistu hjá Helgu frænku þessa nótt, þá átti amma að segja þeim sögur. Þau voru ekki með neinar bækur með sér svo ég spann upp tvær ævintýrasögur á nóninu.
Kannski ég sé efni í rithöfund eftir allt saman? Alla vega voru augu barnanna kringlótt af spenningi þegar þau hlustuðu á sögurnar mínar.

Svo las ég með þeim bænirnar. Við spenntum öll greipar og fórum með Faðirvorið og Láttu nú ljósið þitt, skína við rúmið mitt.
Þessi stund minnti mig á þegar ég var lítil, því mamma las alltaf bænirnar með okkur systkinunum. Ég man að ég skildi aldrei neitt í þessum 'skuldunautum' og hélt þess vegna að þetta væru bara venjuleg naut, eins og Boli, sem ég var ákaflega hrædd við.
Mamma sagði nefnilega stundum, ef ég var óþekk að Boli kæmi og tæki mig. Svo fór hún með vísuna um Bola til þess að leggja áherslu á orð sín. Boli, Boli bankar á dyr, með bandinu sínu langa. Láttu ekki hann Hólsbola, ná í þig Manga. 
Boli and The Boogie Man í Bandaríkjunum eru frændur held ég.

Ég sagði börnunum ekkert frá Bola og ekki heldur Grýlu, enda voru þau svo þæg og góð. Svo er það ekki móðins í dag að segja börnum svona tröllasögur.
En ég minnist þess ekki að þessar sögur um Bola og Grýlu hafi gert mér neinn skaða, heldur þvert á móti virkuðu þær vel á óþekktina í mér, meðan ég var enn svo lítil að ég trúði þeim.  Börnin voru fljót að sofna, þessi litlu ljós.

Við systir mín spjölluðum saman yfir sjónvarpinu og fengum okkur einn bjór. Svo komu kisurnar niður af efri hæðinni. Þau Ronja fríða, skógarköttur og Tobías bangsi.
Þau höfðu haft hægt um sig inni í einu herberginu, meðan þau heyrðu til barnanna. Kisurnar fengu mat og knús hjá mömmu sinni, svo fóru þær aftur upp, þar sem þær eru mjög ógestrisnar og kærðu sig ekki baun um mig.

það er munur en Tító. Í fyrradag var ég nýbúin að skipta á rúminu og hlakkaði til að fara að sofa í kattarhárslausu rúminu. En svo kom Tító og smeygði loppunni undir sængurhornið eins og vanalega, til þess að komast á sinn fasta stað upp við brjóstið á mér.
En ég ætlaði að njóta þess að vera laus við kattarhárin í nefinu í eina nótt og sagði honum að fara. Ég hef aldrei á ævi minni séð neina persónu svona innilega móðgaða. Tító snarsneri sér við og lagðist út á ystu brún á rúminu. 

Ég reyndi að blíðka hann með því að strjúka honum bakið, en þá stóð hann eldsnöggt upp og þvoði blettinn sem ég hafði snert í snarheitum og lagðist svo niður aftur, enn fjær mér.
Ég prófaði að tala hann til og sagði honum, að koma þá. Togaði í hann og klappaði honum til skiptis, en hann sneri bara uppá sig og endaði svo með því að stökkva fram úr rúminu.
Þessa nótt svaf hann svo grútfúll í bælinu sínu frammi í stofu. 

En nú erum við orðin sátt, því  síðustu nótt, fékk ég hann með miklum eftirgangsmunum til þess að brjóta odd af oflæti sínu og langrækni og koma undir sængina hjá mér eins og vanalega.
Segið þið svo að dýr hafi ekki sál?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Dýr hafa sko sál, það er ekki spurning.  Kisa okkar er brjáluð í blóm í vasa og slíkt er til á heimilinu þá reynir hún allt til að komast í blómin, hún var rassskellt í gærkvöldi af húsbandinu og fór í rosa fílu, svaf frammi í nótt dýrilð. Nú liggur hún hérna klesst upp við mig.  Takk fyrir að birta ljóðið gamla, það er alltaf svo falleg.  Myndin er líka frábær.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.2.2008 kl. 15:48

2 Smámynd: www.zordis.com

Þú ert örugglega efni í góðan rithöfund, börnin eru bestu áheyrendurnir !  Það hefur verið óvænt og gaman að hitta barnabörnin og eiga góða stund með systur.  Sunnudagskveðjur og kisuknús!

www.zordis.com, 17.2.2008 kl. 21:04

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ásdís, étur hún Bóthildur bara blóm í vasa og engin önnur blóm?
Mínir kettir éta allfaf græn blöð af blóminu Vatnsberinn til þess að bæta meltinguna. Innikettir eins og mínir þurfa að éta kattagras eða græn blöð af blómum, því þeir komast ekki út til þess að éta gras eins og útikettir gera.
En þeir gera það til þess að meltingin verði í lagi og ekki safnist fyrir hárboltar í þörmunum. En annars takk sömuleiðis.

Sunnudagskveðjur til þín líka Zordís. 

Svava frá Strandbergi , 17.2.2008 kl. 21:48

4 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Hahaha ... það eru svo fyndnar svona dýrasögur :)

gerður rósa gunnarsdóttir, 18.2.2008 kl. 16:00

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Hæ, Gerður asnabóndi! Hvernig gengur með dýrin þín? Ég sá í veðurfrétturm í sjónvarpinu, að það var bara nokkura stiga hiti í Grikklandi. Munur en þegar við Siggi vorum þar.

Svava frá Strandbergi , 18.2.2008 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband